Kaup Baldurs Ingvarssonar, staðarhaldara að Staðarfelli, á félagsheimilinu á Fellsströnd vöktu athygli á stærstu fréttamiðlum, sjá hlekki hér neðar. Það er ánægjulegt að sjá jákvæðar fréttir af landsbyggðinni vekja athygli, enda félagsheimilið löngum verið aðdráttarafl menningar og skemmtunar bæði fyrir heimafólk sem gesti.
Félagsheimilið að Staðarfelli hefur verið miðpunktur og grundvöllur félagslífs á Fellsströndinni um áratugaskeið. Þar hefur ávallt ríkt góður andi og margar góðar minningar eru frá skemmtilegum stundum og góðu fólki.
La Dolce Vita ehf., sem er í eigu Baldurs Ingvarssonar staðarhaldara á Staðarfelli á Fellsströnd, hefur fest kaup á félagsheimilinu að Staðarfelli. Seljendur voru Dalabyggð, Kvenfélagið Hvöt og Ungmennafélagið Dögun. Kaupin fela meðal annars í sér að Ungmennafélaginu Dögun á Fellsströnd er heimiluð afnot af Félagsheimilinu að Staðarfelli til að halda þorrablót, kóræfingar, söngskemmtanir, félagsfundi og annað menningarstarf sveitarinnar hverju sinni í fullu samráði og samstarfi við nýjan eiganda.
Allir hlutaðeigendur hafa átt náin og góð samskipti varðandi viðskiptin og eru einhuga um samvinnu og samstarf til framtíðar. Það er öllum í hag að uppbygging svæðisins gangi sem best og félagsheimilið sé sjálfbær eining í rekstri. Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalabyggðar ritaði undir fyrir hönd Dalabyggðar á sólríkum föstudegi og óskaði nýjum eiganda velfarnaðar, gæfu og giftusemi. Samstaða ríkir í Dalabyggð um uppbyggingu á ferðaþjónustu og annarri atvinnustarfsemi og falla þessi kaup vel að þeirri framtíðarsýn.
Þess ber að geta að fyrir hönd Kvenfélagsins Hvatar og Ungmennafélagsins Dögunar rituðu undir systurnar Sigrún Birna Halldórsdóttir og Steinunn Helga Halldórsdóttir frá Breiðabólsstað en foreldrar þeirra skrifuðu undir skjölin þegar félagsheimilið var stækkað árið 1960 og amma þeirra Steinunn Þorgilsdóttir fyrir hönd Kvenfélagsins Hvatar árið 1928 þegar samþykkt var að félagsheimilið yrði byggt en það var reist árið 1931.
„Uppbygging Staðarfells er langtíma sóknarverkefni sem þarfnast náinnar samvinnu og samstarfs við staðbundna verslun og þjónustu. Kaupin á félagsheimilinu styðja við það einstaka samfélag sem fyrir er á Fellsströnd. Framundan eru gjöfulir tímar í endurgerð þessa fágæta og fallega staðar með góðu fólki sér við hlið,“ segir Baldur Ingvarsson eigandi Staðarfells.
コメント